top of page

Hjólreiðafólk HFA 2022

Lokahóf HFA fóru fram á laugardaginn síðast liðinn, 29. október.

Í ár var lokahófið tvískipt, fyrst fyrir börn og unglinga þar sem valdnir voru tveir ungliðar. Síðan var komið að fullorðna fólkinu og þá voru tveir aðilar valdnir, hjólreiðakona ársins og hjólreiðamaður ársins.


Ungliði ársins kvk

Sylvía Mörk Kristinsdóttir

Sylvía Mörk keppti á tímabilinu í U13 og sigraði Fjallabrun sem fór fram í Hlíðarfjalli. Þá sigraði hún í Ungdúró sem fór einnig fram í Hlíðarfjalli.


Ungliði ársins kk

Hlynur Snær Elmarsson

Hlynur Snær var í ár valin efnilegasti ungliði ársins hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar. Hlynur hefur keppt í fjallahjólreiðum síðan 2018 og síðustu þrjú ár hefur hann sótt öll fjallabrunamót sem haldin hafa verið ásamt því að reyna fyrir sér í enduro. Hlynur keppti á liðnu tímabili í U15 og er bikarmeistari í sínum flokk í fjallabruni með sigri á öllum mótum sumarsins. Hann er einnig Íslandsmeistari í sínum flokk. Hlynur sigraði þá einnig Ungdúró sem haldið var á Akureyri.


Það er ánægjulegt að fylgjast með áhugasömum ungum hjólurum rísa og er engin spurning um að hér er á ferðinni hjólarar sem verða áberandi í framtíðinni.


Hjólreiðakona ársins

Hafdís Sigurðardóttir

Hafdís Sigurðardóttir hefur átt frábært keppnistímabil í ár og er tvöfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari, í götuhjólreiðum og í tímatöku.


Götuhjólatímabilið hófst með þriggja daga keppnisferð til Danmerkur þar sem Hafdís náði í mikilvæga reynslu fyrir komandi keppnir. Hafdís stóð uppi sem stigahæst í bikarmótaröð í A-flokk kvenna með tvo sigra og tvö silfur auk sigri á Íslandsmótinu. Hafdís sigraði einnig allar keppnir í tímatöku á tímabilinu, sem landaði henni sigri í bikarmótaröðinni og Íslandsmeistaratitli. Hafdís keppti einnig á Íslandsmótinu í criterium og lenti í öðru sæti. Þá keppti hún á Íslandsmótinu í cyclocross og lenti í þriðja sæti.


Þessi frábæri árangur leiddi til þess að Hafdís var valin til að fara fyrir hönd Íslands á EM í Þýskalandi í bæði götuhjólreiðum og í tímatöku. Þar lagði Hafdís sig alla fram og var með frábæran tíma í tímatökunni og hjólaði tæpa 90km í götuhjólunum í hrikalega erfiðari og hraðri keppni. Mikilvægur undirbúningur fyrir EM var að keppa í Svíþjóð á Postnord U6 í júlí. Hafdís stóð sig frábærlega á því móti og endaði í fjórða sæti.


Það er greinilegt að Hafdís er ein fremsta hjólreiðakona Íslands, hún hefur verið á hraðri uppleið síðustu ár og stefnir enn hærra. Hafdís leggur sig alltaf alla fram og hefur mikinn metnað fyrir því sem hún gerir og sýndi í ár að hún er alls ekki bundin við eina grein. Hún er frábær íþróttakona og fyrirmynd sem hefur þjónað lykilhlutverki í því að fjölga keppendum á vegum HFA síðustu ár, og þá sérstaklega í kvennaflokknum.


Hafdís var þetta sama kvöld kosin sem hjólreiðakona ársins frá HRÍ og við óskum henni innilega til hamingju með þann titil, virkilega vel að þessu komin.


Hjólreiðamaður ársins

Jónas Stefánsson

Jónas er metnaðarfullur fjallahjólari sem hefur síðastliðin ár einblínt á Enduro.

Jónas er bikarmeistari í A-flokk karla í Enduro með tveimur sigrum á tímabilinu. Þá lenti hann í þriðja sæti á Íslandsmótinu í fjallabruni.


Jónas vann sér inn keppnisrétt í Enduro World Series annað árið í röð og keppti þar í júní. Jónas keppti einnig í landsliði Íslands í Trophy of Nations í október en það er stórt skref fyrir greinina þar sem þetta var fyrsta skipti sem Ísland á þátttakendur á mótinu. Dýrmæt reynsla sem fékkst í þeirri keppni sem mun nýtast áfram til að byggja upp og þróa greinina.


Jónas er frábær fyrirmynd fyrir unga hjólara og hefur mikinn vilja til að ryðja brautina fyrir komandi kynslóðir og gegnir þar lykilhlutverki hjá HFA. Frumkvæði, gleði og metnaður lýsir Jónasi vel og er ljóst að hann á eftir að gera góða hluti í framtíðinni.


Hjólreiðafélag Akureyrar þakkar kærlega fyrir liðið tímabil og hlökkum til þess næsta!
Comments


bottom of page