HFA 2025
- stjorn5
- 2 hours ago
- 3 min read
Félagar í Hjólreiðafélagi Akureyrar náðu eftirtektarverðum árangri á árinu 2025 líkt og oft áður. Þátttaka félagsmanna á götu- og fjallahjólamótum var góð en félagið átti fulltrúa í nær öllum keppnum sem í boði voru á árinu, hvort sem um var að ræða Íslandsmót, bikarmót eða sjálfstæð mót; götuhjól eða fjallahjól.
Jákvæð teikn eru á lofti að sjá unga fólkið okkar ná á pall en slíkt er eingöngu mögulegt með góðu ungliðastarfi og að eiga frábærar fyrirmyndir sem vekja áhuga. Þessi árangur hvetur stjórn til að leggja enn meiri áherslu á ungliðastarfið!
Götu- og malarhjólreiðar
Starfið í götuhjólreiðum fylgir sólargangnum en samhjól eru liður í að gera gott hjólafólk betra því besta þjálfunin felst í því að fara út að hjóla með einhverjum sem er öflugri en þú. Samhjól frá Hofi hófst á vormánuðum og stóð út sumarið og var mæting nokkuð góð. Framan af sumri keyrði svo Rögnvaldur og Hafdís áfram götuhjólaæfingar ásamt góðum hópi örlugra þjálfara og var þátttaka þar góð.
Hafdís Sigurðardóttir varð Íslands- og bikarmeistari í Elite flokki kvenna í tímatöku, hún varð líka Íslandsmeistari í malarhjólreiðum kvenna og var að endingu valin hjólreiðakona Íslands. Hafdís er óumdeilanlega meðal fremstu hjólreiðakvenna á landinu og erum við stolt af árangri hennar! Mótin
Harpa Mjöll Hermannsdóttir var stigahæst í B flokki kvenna á mótum sumarsins 5. árið í röð og Rögnvaldur Már Helgason var stigahæstur í B flokki karla í tímatöku. Þorbergur Ingi Jónsson varð bikarmeistari í E-hjólreiðum á undirbúningstímabilinu sl. vor. Að lokum má nefna að götuhjólafólk HFA fjölmennti á tvö opin mót í sumar; Mývatnshringinn og Tour de Ormurinn og náðu frábærum árangri.
Í yngri flokkum varð Júlía Björg Jóhannsdóttir Íslandsmeistari í flokki U13 og í tímatöku í sama aldursflokki auk þess sem Regína Diljá Rögnvaldsdóttir varð Íslandsmeistari í tímatöku í flokki U15.
Ekki er hægt að tæma umfjöllun um árangur félaga í götuhjólreiðum án þess að minnast á landsliðsfólkið okkar, en þær Hafdís Sigurðar, Silja Jóhannsdóttir og Sóley Svansdóttir hafa keppt á mótum erlendis en þær keppa allar í elite flokki kvenna hér innanlands.
Fjallahjólreiðar
Í fjallahjólreiðum er HFA í sérflokki enda óvíða á landinu jafn flott aðstaða og gott starf í gangi en Gunnar Jarl Gunnarsson hefur leitt uppbyggingu og ungliðastarf greinarinnar af einstökum dugnaði og fórnfýsi.
Hlynur Snær Elmarsson varð bikarmeistari í elite flokki í fjallabruni en Hlynur er ungur og mjög efnilegur fjallahjólari! Hlynur var valinn í hóp efnilegasta hjólreiðafólks ársins á lokahófi Hjólreiðasambands Íslands. Við erum stolt af árangri hans og við hlökkum til að fylgjast með honum áfram! Björn Andri tók Íslandsmeistaratitilinn í Fjallabruni og stóð sig virkilega vel, mjög sterkur hjólari.
Sylvia Mörk Kristinsdóttir varð bikarmeistari í fjallabruni í flokki U17. Óli Bjarni Ólason varð bikarmeistari í fjallabruni U15 karla en Harpa Kristín Guðnadóttir í fjallabruni U15 kvenna. Andri Björn Eggertsson varð Íslandsmeistari í U11 flokki drengja og hjónin Greta Huld Mellado og Kristinn Magnússon í Masters flokki.
Í Enduro varð Jónas Stefánsson Íslandsmeistari karla, Kristinn Magnússon í Masters flokki karla og Arna Benný í Masters flokki kvenna. Í þeim flokki áttum við alla þrjá keppendur á palli. Bjarki Jóhannesson varð svo Íslandsmeistari í rafhjólaflokki í Enduro.
Í Ungdúró varð Benóný Þór Jónasson varð bikarmeistari í U11, Andri Björn Eggertsson varð Íslandsmeistari í U11 flokki drengja og Jóel Orri Jóhannesson Íslandsmeistari í U15 flokki drengja. Aron Breki Haraldsson var í fyrsta sæti í í flokki U11 á Íslandsmóti í XCO í Kjarnaskógi.
Kristinn Magnússon varð stigahæstur í Mastersflokki í fjallabruni. Árangur unga fólksins í fjallahjólreiðum ber ungliðastarfinu glöggt merki en það má ekki gleyma að á bakvið árangurinn eru eldri iðkendur sem stunda sitt sport af einlægum áhuga og hafa náð eftirtektarverðum árangri.
Jónas Stefánsson er í þeim hópi en hann hefur keppt á erlendri grundu á árinu ásamt því að taka þátt í mótum innanlands. Hann er án efa einn af okkar öflugasta íþróttafólki og sterk fyrirmynd fyrir þá sem feta í slóðina.
Það er ljóst að Hjólreiðafélag Akureyrar er- og verður eitt öflugasta hjólreiðafélag landsins enda aðstæður til að stunda sportið einstakar í kringum Akureyri. Eftir glæsilegt ár getum við ekki beðið eftir sigrum komandi árs!!
