Um helgina fóru fram tvö Íslandsmót, Castelli classic sem Tindur hélt.
Á fimmtudaginn var Íslandsmót í tímatöku haldið í Þorlákshöfn. Þar kepptu frá HFA þrjár konur og hjóluðu þær allar 22 km. Hafdís sigraði A-flokk kvenna með tæpu 2 mín forskoti á næstu konu. Virkilega vel gert hjá henni og nældi hún sér þar með bæði í bikarmeistaratitilinn og Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.
Þá kepptu þær Þórdís Rósa Sigurðardóttir og Sesselja Sigurðardóttir í B-flokk kvenna og voru í 2. og 3. sæti.
Á laugardaginn var keppt í götuhjólreiðum á Þingvöllum og átti HFA þar nokkra keppendur.
A-flokkur kvenna hjólaði 118 km leið í kringum Þingvallarvatn auk tveggja minni hringja. Þar náðu Hafdís og Silja Jóhannesdóttir að slíta sig frá hópnum og hjóluðu lengi einar en Ágústa Edda (Tind) og Kristín Edda (HFR) náðu þeim svo og hjóluðu þær síðustu kílómentrana fjórar saman. Keppnin endaði síðan í endasprett sem Hafdís sigraði og er þar með Íslandsmeistari í götuhjólreiðum annað árið í röð. Silja var í 2. sæti en endaspretturinn var gríðarlega spennandi og mátti litlu muna, skera þurfti úr með mynd hvor hafi verið á undan Silja eða Ágústa. Sóley Svansdóttir var síðan í 6. sæti. Virkilega vel gert hjá okkur konum, en aðstæður voru mjög krefjandi vegna veðurs.
Í B-flokk kvenna kepptu þrjár konur frá HFA. Hópurinn hjólaði fjóra minni hringi og var Harpa Mjöll Hermannsdóttir fjórða í mark. Einnig kepptu þær Gyða Björk Ólafsdóttir og Þórdís Rósa Sigurðardóttir. Þá kepptu þeir Tryggvi Kristjánsson og Bjarni Jónasson í B-flokki karla en hópurinn hjólaði 101 km, hring í kringum Þingvallarvatn auk þess tóku þeir einn minni hring.
Við óskum Hafdísi nýkringdum Íslandsmeistara og bikarmeistara innilega til hamingju og óskum einnig öðrum HFA félagsmönnum til hamingju með flottan árangur um helgina. Stutt er í næstu götuhjólakeppni, en hún fer fram í Kjósinni þann 8. júlí og ættu allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi þar.
コメント