HFA opnaði nýlega fyrir skráningar í félagið í gegnum forritið Sportabler sem margir kannast eflaust við. Félagsgjöldin okkar eru nú greidd í gegnum Sportabler, sem einfaldar ferlið umtalsvert. Félagsgjaldið fyrir árið 2022 er 5000 kr.
Við höfum þegar skráð inn í forritið alla þá aðila sem voru félagar í HFA á síðasta ári, svo allir þeir aðilar ættu að vera komnir með kröfu vegna félagsgjalda inn á sitt svæði í Sportabler. Þeir sem ekki hafa aðgang að Sportabler þurfa að sækja forritið og stofna þar aðgang. Hægt er að sækja forritið í appstore eða playstore og fylgja leiðbeiningum frá Sportabler. Nýjir meðlimir sem við höfum ekki þegar forskráð geta skráð sig í sem félagar í HFA í gegnum vefverslun HFA á Sportabler.
Einfalt er að greiða félagsgjaldið í Sportabler og hafa fyrri félagsmenn fengið greiðsluseðil. Í Sportabler appinu er smellt á “ógreitt”, þar sem krafa vegna félagsgjalda HFA ætti að birtast. Hægt er að velja um að greiða með greiðsluseðli eða korti.
Við höfum þegar stofnað æfingahóp fyrir stökkæfingar í Sportabler og höfum í hyggju að stofna fleiri. Í forritinu er hægt að senda skilaboð á æfingahópa, stofna æfingar og fleira skemmtilegt, svo þetta á án efa eftir að nýtast vel. Við munum til dæmis nýta þetta fyrir sumaræfingar barna og unglinga.
Um kosti þess að vera skráður félagi í HFA má nefna að til þess að keppa á hjólreiðamótum sem haldin eru undir HRÍ og eiga kost á titli er nauðsynlegt að vera meðlimur í hjólreiðafélagi. Þá munu skráðir félagar í HFA hafa forgang á æfingar á vegum félagsins, sem gildir bæði um börn og fullorðna. Mikil aðsókn hefur verið í hjólreiðaæfingar síðustu ár, ekki síst á barna- og unglingaæfingarnar. Fyrirkomulag þeirra fyrir sumarið verður kynnt innan skamms.
Svo er félagsaðild í HFA auðvitað ekki einungis fyrir þá sem vilja keppa, heldur líka njóta íþróttarinnar og stuðla að framgangi hennar hér á svæðinu. Markmið HFA samkvæmt 2. grein laga félagsins eru:
Framgangur hjólreiða á Akureyri og í Eyjafirði og hagsmunagæsla fyrir hjólreiðafólk.
Faglegar hjólreiðaæfingar í öllum greinum hjólreiða.
Keppnishald í hjólreiðum.
Fræðsla fyrir hjólreiðafólk, jafnt unga sem aldna.
Stuðla að nýliðun og auknum hjólreiðum á svæðinu meðal annars með kynningu og fræðslu fyrir almenning og yfirvöld.
Vinna að bættum aðstæðum fyrir hjólreiðar á svæðinu bæði innanbæjar og utan.
Að halda Hjólreiðahátíð árlega.
Að skrá hjólaleiðir á Norðurlandi í sameiginlega gagnagrunna þar sem fram kemur lengd og erfiðleikastig svo auðvelt sé að finna þær leiðir.
Að stuðla að og fylgja eftir uppbyggingu, merkingu og viðhaldi hjólaleiða á Norðurlandi í samstarfi við landeigendur, viðeigandi yfirvöld og aðra hagsmunaaðila.
Að vera keppnisfélag fyrir fólk sem vill keppa undir merkjum HFA.
Comments