top of page

Akureyrardætur keppa erlendis með HRÍ


Mánudaginn 12. júlí hefst hjólreiðakeppnin PostNord U6 Cycle Tour í Svíþjóð. Hjólreiðasamband Íslands hefur boðið afrekshjólreiðafólki að taka þátt í mótinu undir merkjum HRÍ, en valið byggir á afreksstefnu sambandsins og frammistöðu í keppnum sumarsins.


HFA á fjóra frábæra fulltrúa í þessum hópi. Akureyrardæturnar Silja Jóhannesdóttir, Silja Rúnarsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Freydís Heba Konráðsdóttir fara til Svíþjóðar og keppa í Elite flokki kvenna. Þetta verður frábær reynsla fyrir þær sem og aðra í liði HRÍ, og viðurkenning á því hversu langt þær hafa náð í greininni. HFA óskar þeim innilega til hamingju með valið og óskar þeim að sjálfsögðu góðs gengis.


Keppnisferðir á vegum minni sérsambanda innan ÍSÍ eru kostnaðarsamar fyrir þátttakendur, því samböndin hafa ekki úr miklu fjármagni að moða en reyna á sama tíma að halda úti metnaðarfullu starfi. Það á einnig við í þessari ferð, en keppendur greiða kostnaðinn að mestum hluta sjálfir en fá þó styrk frá HRÍ. Stjórn HFA hefur því tekið ákvörðun um að greiða þeim Silju, Silju, Hafdísi og Freydísi styrk vegna ferðarinnar sem er svipaður og sá styrkur sem HRÍ greiðir.


Keppnin hefst á stuttri tímatöku, en á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag eru hefðbundnar götuhjólakeppnir. Á föstudag er svo keppt í criterium og mótinu lýkur á laugardag með tímatöku.




bottom of page