top of page
Stjórn HFA

Stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar var kjörin á aðalfundi þann 22. Nóvember 2023.

Formaður: Skúli Gunnar Árnason - formadur@hfa.is
Gjaldkeri: Garðar Kári Garðarsson - gjaldkeri@hfa.is
Ritari: Bjarni O. Einarsson - ritari@hfa.is


Varamaður: Sóley Kjerúlf Svandóttir

Varamaður: Jóhann Heiðar Friðriksson

Hægt er að senda póst á stjórn í gegnum póstfangið stjorn@hfa.is

Siðareglur stjórnarmanna HFA

1. grein
​Markmið siðareglnanna

Í reglum þessum er skráð og skilgreind sú háttsemi sem stjórnarmenn í stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar vilja sýna af sér við öll sín störf. Með stjórnarmönnum er átt við aðalmenn jafnt sem varamenn. Sömu siðareglur gilda fyrir áheyrnarfulltrúa í stjórn og varamenn þeirra eins og fyrir stjórnarmenn. Til einföldunar er hér fyrir aftan aðeins talað um stjórn og stjórnarmenn en þá er átt við reglur sem einnig gilda fyrir áheyrnarfulltrúa, þó að þeir séu í raun ekki hluti af stjórn.

2. grein
Starfsskyldur

Stjórnarmenn gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi og gæta almannahagsmuna og hagsmuna Hjólreiðafélags Akureyrar. Í störfum sínum eru stjórnarmenn bundnir af lögum, reglum og samþykktum Hjólreiðafélags Akureyrar sem og sannfæringu sinni.

Stjórnarmenn hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar.

Stjórnarmenn móta stefnu og hafa eftirlit með rekstri Hjólreiðafélags Akureyrar. Stjórnarmenn gæta þess að framkvæmd stjórnsýslu og rekstur félagsins sé ávallt eins og best verður á kosið. Stjórnarmenn aðhafast ekkert það sem falið getur í sér misnotkun á fjármunum félagsins eða almannafé. Stjórnarmenn forðast að hafast nokkuð að sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða sem varpað getur rýrð á störf þeirra eða Hjólreiðafélags Akureyrar.

Formenn ráða eða nefnda hafa það hlutverk að upplýsa félagsmenn Hjólreiðafélags Akureyrar um framkvæmd starfa sinna og atriði sem skipta máli í rekstri félagsins eins og kostur er. Fulltrúi Akureyrarbæjar sem og áheyrnarfulltrúi annara félaga hafa það hlutverk að upplýsa bakland sitt um framkvæmd starfa sinna og atriði sem skipta máli í rekstri félagsins eins og kostur er. Formaður og varaformaður hafa það hlutverk að upplýsa fulltrúa Akureyrarbæjar, ÍBA og ÍSÍ um framkvæmd starfa sinna og atriði sem skipta máli í rekstri félagsins eins og kostur er.

Stjórnarmenn eru ávallt reiðubúnir að axla ábyrgð á störfum sínum.

Markmiðið með stofnun Hjólreiðafélags Akureyrar er að efla hjólreiðar almennt, halda mót og keppnir, halda úti æfingum og stuðla að uppbyggingu hjólaleiða í bæjarlandi Akuryrarbæjar og gefa almenningi betri kost á að kynnast og njóta náttúru þess þegar ferðast er um á reiðhjólum. Auðvelda skal almenningi aðgengi að hjólaleiðum í bæjarlandinu eftir því sem unnt er án þess að náttúra þess spillist og veita fræðslu um slóða, svæði, leiðir, sögu og mannlíf svæðisins. Einnig á félagið að gefa álit sem og að standa á bakvið nýframkvæmdir á hjólaleiðum á svæði félagins sem og sinna viðhaldi á núverandi aðstöðu í bæjarlandinu.

3. grein
Valdmörk og málefnaleg umfjöllun

Stjórnarmenn gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Hjólreiðfélags Akureyrar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra stjórnarmanna og starfsmanna félagsins virðingu.
Stjórnarmenn skulu fara vel með vald sitt og gæta þess að umfjöllun sé ávallt málefnaleg. Þeir skulu einnig gæta þess að persónulegar skoðanir á einstaklingum, stofnunum eða viðfangsefnum hafi ekki áhrif á *umfjöllun sína og niðurstöður. *á ákvarðanatöku sína eða framkvæmd. Sömuleiðis skulu þeir taka tillit til sjónarmiða allra málsaðila án þess þó að láta skoðanir annarra rýra nauðsynlegt sjálfstæði sitt eða hafa áhrif á eigin afstöðu og ályktanir.

4. grein
Hagsmunaárekstrar

Stjórnarmenn forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og ber að tilkynna formanni stjórnar um hugsanlegt vanhæfi sitt.

 Um mat á hæfi við afgreiðslu einstakra mála og málsmeðferð í því sambandi fer eftir hæfisreglum almennra stjórnsýslulaga.

 Stjórnarmenn nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Hjólreiðafélag Akureyrar lýkur.

5. grein
Gjafir og fríðindi

Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim er leita eftir þjónustu Hjólreiðafélags Akureyrar nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

6. grein
Trúnaður

Stjórnarmenn gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls.  Trúnaðurinn helst áfram eftir að stjórnarmenn láta af störfum fyrir Hjólreiðafélag Akureyrar.

Stjórnarmenn virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á stjórnarfundum Hjólreiðafélags Akureyrar og öðrum fundum á vegum félagsins, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um, nema að annað sé ákveðið.

7. gr.
Stöðuveitingar

Stjórnarmenn gæta þess að við stöðuveitingar hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar sé í hvívetna fylgt lögum og reglum og að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á starfsmönnum.

8. gr.
Miðlun siðareglna til stjórnarmanna og almennings

Stjórnarmenn undirgangast þessar siðareglur með undirskrift sinni og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi. Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki félagsins, félagsmönnum og almenningi til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.

bottom of page