Keppendur frá HFA fjölmenntu á Íslandsmótið í götuhjólreiðum 2021, sem Tindur hélt á Þingvöllum í gær. Keppnisgleðin hefur verið allsráðandi í bikarmótum sumarsins og konur frá Akureyri hafa sérstaklega verið áberandi á mótunum, bæði hvaða varðar fjölda þeirra en einnig hversu reglulega þær hafa komist á verðlaunapall. Íslandsmótið var engin undantekning á þessu.
Silja Jóhannesdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í Elite flokki kvenna, eða A-flokki eins og hann er kallaður. Þessi sigur hennar var nokkuð óvæntur, enda var þetta aðeins annað mótið hennar í þessum styrkleikaflokki, en hún sigraði B-flokkinn í fyrstu tveimur bikarmótum ársins. Í síðasta bikarmóti færði hún sig upp í A-flokk þar sem hún endaði í fjórða sæti og því morgunljóst að þar ætti hún heima. Það hefur nú verið endanlega staðfest og það rækilega, því hún sigraði Íslandsmótið eftir æsilegan endasprett þar sem meðal annars var að finna fyrrverandi Íslandsmeistarann Ágústu Eddu Björnsdóttur. Hafdís Sigurðardóttir, ein allra sterkasta hjólreiðakona landsins kom sjónarmun á eftir Silju í mark og HFA átti því keppendur í tveimur efstu sætunum. Hér að neðan má sjá endasprettinn í myndbandi sem Unnsteinn Jónsson tók en að ofan er mynd frá Herði Ragnarssyni sem hann tók þegar Silja kom yfir marklínuna.
Þær Silja og Hafdís keppa saman undir merki Akureyrardætra, ásamt Freydísi Hebu Konráðsdóttur og Silju Rúnarsdóttur. Í þessari grein hjólreiða skiptir liðsheildin gríðarlega miklu máli og sigur Silju J. er sigur þeirra allra. Silja R. vann til dæmis mjög óeigingjarnt starf í fyrri hluta keppninnar, lagði sitt af mörkum til að þreyta andstæðingana og stríða þeim svo þær kæmu þreyttari inn í lokasprettinn. Það skilaði sér svo sannarlega. Hér að neðan má sjá myndir frá Herði Ragnarssyni af þeim báðum, en þar sést vel hvernig Silja sleit sig frá hópnum og hjólaði ein.
Meistarar á meistara ofan
Sem fyrr segir voru HFA-liðar margir á mótinu og komust á verðlaunapall í mörgum flokkum.
Karlar í B-flokki og Mastersflokkum voru ræstir saman en þar voru fjórir keppendur frá HFA, en þeir æfa saman og keppa sem Team Kudos. Í B-flokki voru þeir Magnús Smári Smárason og Benedikt Halldórsson, í Masters 40-49 ára var Tryggvi Kristjánsson og í Masters 50-59 ára var Sigmar Benediktsson. Þar sem flokkarnir voru ræstir saman mátti liðið allt vinna saman og þeir Magnús, Tryggvi og Sigmar gerðu það framan af en Benedikt var í hópi rétt á eftir þeim. Magnús varð fyrir því óláni að keyra út úr braut þegar hann forðaði sér frá árekstri á keppenda sem hafði dottið á veginum, og kláraði því ekki keppnina. Hinir þrír kláruðu allir og Sigmar gott betur en það, því hann sigraði sinn flokk sannfærandi og kom fjórum mínutum á undan næsta manni í mark. Tryggvi endaði í 9. sæti, aðeins þremur sekúndum á eftir sigurvegaranum og því ansi þéttur pakkinn þar fremst. Bendikt endaði svo í 11. sæti í B-flokki.
Það sama var uppi á teningnum varðandi ræsingu og samvinnu í B-flokki og Mastersflokkum kvenna. Í B-flokki kepptu þær Berglind Jónasardóttir, Sóley Kjerúlf Svansdóttir og Thelma Rut Káradóttir. Í Masters 40-49 ára var Harpa Mjöll Hermannsdóttir og í Masters 50-59 ára voru þær Anna Lilja Sævarsdóttir og Þórdís Rósa Sigurðardóttir. Þessar konur gerðu sér lítið fyrir og röðuðu sér nánast allar í verðlaunasæti. Berglind sigraði B-flokkinn og var jafnframt fyrst í mark af öllum þeim sem voru í þessum ráshópi. Sóley nældi sér í þriðja sætið og Harpa Mjöll varð þriðja í sínum flokki. Þessar þrjár unnu vel saman í gegum alla keppnina og voru í hópi 13 kvenna sem hjóluðu saman lengst of og kláruðu með sterkum endaspretti, þar sem Berglind var sem fyrr segir fljótust. Thelma Rut varð í 9. sæti í B-flokki. Þær Anna Lilja og Þórdís Rósa hjóluðu saman nánast allan tímann, en Þórdís varð fyrir því óláni að missa keðjuna af tannhjólinu og þurfti að stöðva til að koma henni aftur á. Hún sýndi þvílíka seiglu og kom sér aftur í hópinn, sem tók talsvert á eins og gefur að skilja. Anna Lilja krækti í þriðja sætið í Masters 50-59 og Þórdís varð fjórða, nokkrum sekúndum á eftir Önnu.
Frábært Íslandsmót er að baki og hjólreiðafélaginu Tindi eru færðar bestu þakkir fyrir flott mót og skipulag.
Comments