Alls lögðu 9 konur frá HFA leið sína vestur á Snæfellsnesið til að taka þátt í þriðja bikarmóti sumarsins, Jökulmílunni.
Fjórar voru skráðar í A-flokk kvenna en þær hjóluðu krefjandi 138 km, þar sem farið var frá Grundarfirði, upp Fróðarheiðina og síðan upp Vatnaleiðina, þaðan var hjólað inn í Stykkishólm og til baka til Grundarfjarðar. Á leiðinni upp á Fróðárheiðina slitu þær Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir ásamt Ágústu Eddu úr Tind sig frá hópnum og hjóluðu þrjár restina af leiðinni, eða um 110 km. Silja sigraði síðan í hörku endasprett og hafnaði Hafdís í öðru sæti. Hrikalega vel gert hjá okkar konum eftir langa keppni.
Nú þegar aðeins eitt bikarmót er eftir er staðan í mótaröðinni þannig að HFA á þrjú efstu sætin, Hafdís er efst með 140 stig, Silja í öðru sæti með 122 stig og Silja Jóhannesdóttir með 84 stig. En hún hafnaði í fjórða sæti í Jökulmílunni. Til hamingju stelpur!
Í B-flokk kvenna tóku fimm konur þátt og hjóluðu þær 87 km, frá Grundarfirði áleiðis til Stykkishólmar og beygðu upp að snúningspunkti efst á Vatnaleiðinni, niður og til Stykkishólmar og þaðan aftur til Grundarfjarðar. Harpa Mjöll Hermannsdóttir lenti þar öðru sæti eftir flottan endasprett og situr efst í mótaröðinni með 116 stig eftir þessi þrjú bikarmót. Innilega til hamingju með árangurinn!
Það verður því æsispennandi að fylgjast með úrslitum í bæði A og B flokk kvenna á síðasta bikarmótinu sem fer fram á Þingvöllum þann 6. ágúst.
Næsta mót í götuhjólreiðum er Íslandsmótið sem við hjá HFA ætlum að halda á Mývatni.
Við hvetjum alla félagsmenn okkar, og aðra, til að skrá sig til leiks og vera með í okkar heimabyggð og minnum á að hægt er að skrá sig í A, B eða C flokk. En allar upplýsingar um mótið og skráning fer fram hér = https://hri.is/keppni/515
댓글