top of page

Hjólreiðahelgi HFA

Um helginar hélt HFA þrjú bikarmót, í TT, XCO og Criterium. Götuhjólakeppnin sem átti að fara fram í Mývatnssveit á laugardaginn var því miður aflýst vegna vonskuveðurs. Við viljum byrja á því að þakka öllum þeim sem tóku þátt í viðburðum helgarinnar með einum eða öðrum hætti, virkilega góð stemning í fólki og glaðir þrátt fyrir smá vind og bleytu á köflum. Helgin byrjaði á 2. bikarmóti í tímatöku á fimmtudagskvöldið. Keppnin fór fram inn í Eyjafjarðarsveit þar sem hjólað var lengst 28 km löng leið frá Botnsreit inn að Smámunarsafni. Flottur hópur frá vinum okkar í HFR í team Alvogen mætti á svæðið og kepptu í U15, U17 og A-kk. U flokkarnir hjóluðu 15 km og í U15 KK voru það Hrafnkell Steinarr Ingvason og Þorvaldur Atli Björgvinsson sem kepptu saman. Þorvaldur kom á tímanum 31:02 og Hrafnkell Steinarr á tímanum 31:39. Í U17 voru þær Margrét Blöndahl Magnúsdóttir sem kom á tímanum 34:48, Hekla Henningsdóttir sem kom á tímanum 35:21 og og Eyrún Birna Bragadóttir sem kom í mark á tímanum 37:19.

B-flokkarnir hjóluðu 20 km. Í karlaflokki var það Jón Arnar Sigurjónsson úr Tind sem sigraði á tímanum 32:58, Hjalti Jónsson úr HFA í 2. sæti á tímanum 36:56 og Reynir Guðjónsson úr Tind í 3. sæti á tímanum 37:47. Í B flokk kvenna sigraði Margrét Arna Arnardóttir út Tind á tímanum 36:45, Þórdís Rósa Sigurðardóttir HFA var í 2. sæti á tímanum 41:12 og Hildur Andrjesdóttir einnig úr HFA í því þriðja á tímanum 41:23.

Í A flokk karla kepptu þeir bræður Kristinn Jónsson og Davíð Jónsson úr HFR. Þar kom Kristinn í mark á 39:21 og Davíð á tímanum 39:38. Í A flokk kvenna sigraði okkar kona Hafdís Sigurðardóttir á tímanum 42:30, Kristín Edda Sveinsdóttir úr HFR var í 2.sæti á tímanum 46:25 og Katrín Pálsdóttir úr Tind í 3. sæti á tímanum 47:33.

Myndir úr keppninni má finna hér.

(mynd Ármann Hinrik)


Á hvítasunnudag var byrjað á XCO í Kjarnaskógi. Hörku spennandi keppni á mjög skemmtilegri braut þar sem hjólaðir voru 1-5 hringir. Þar voru aftur mætt til leiks flottur hópur frá HFR auk efnilegra ungmenna frá Brettafélagi Hafnarfjarðar og HFA.

Í A-flokk karla sigraði Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki eftir gríðarlega spennandi endasprett við Kristinn Jónsson úr HFR. Í 3. sæti var Davíð Jónsson.

Í A-flokk kvenna sigraði Kristín Edda Sveinsdóttir, HFR, í 2. sæti var Björg Hákonardóttir, Breiðabliki og í því þriðja var Bergdís Eva Sveinsdóttir, HFR.

Í masters 35+ sigraði Hjalti Jónsson úr HFA, í 2. sæti var Henning Arnór Úlfarsson, HFR og í 3. sæti Gunnar Örn Svavarsson, einnig úr HFR.

Önnur úrslit úr keppninni má finna hér.

Myndir úr keppninni má finna hér.

Þá var einnig haldið krakkamót og hjóluðu krakkarnir ýmist einn eða tvo hringi í Kjarnaskóg, endað var í grilluðum pylsum og svala. Mikil stemning og spenningur var í krökkunum og gaman að leyfa þeim að spreyta sig.


Um kvöldið var síðan 1. bikarmótið í Criterium haldið á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Stutt og tæknileg braut og var mikið action alla keppnina í öllum flokkum en vegna fjölda var ákveðið að sameina flokka í ræsingu.

Í B flokki kvenna sigraði Katrín Marey Magnúsdóttir, HFR. Í 2. sæti var Fanney Rún Ólafsdóttir, HFR og í 3. sæti Harpa Mjöll Hermannsdóttir, HFA. Í B flokki karla var í 1. sæti Guðfinnur Hilmarsson úr Tind, í 2. sæti Rögnvaldur Már Helgason, HFA og í 3. sæti Steven Patrick Gromatka, Tind.

Í A flokki kvenna sigraði Silja Jóhannesdóttir, HFA, í 2. sæti Hafdís Sigurðardóttir, HFA og í 3. sæti Kristín Edda Sveinsdóttir, HFR. Í A flokki karla var Davíð Jónsson í 1. sæti, Breki Gunnarsson í 2. sæti og Kristinn Jónsson í 3. sæti. Allir úr HFR.

Önnur úrslit úr keppninni má finna hér, en þar má sérstaklega benda á flotta unga fólkið úr HFR sem tók sér lítið fyrir og keppti í öllum mótum helgarinnar. Virkilega gaman að fylgjast með þeim.

Myndir úr keppninni má finna hér.

(mynd Ármann Hinrik)


Við viljum þakka öllum styrktaraðilum kærlega fyrir, þar má sérstaklega nefna MS hleðslu, Ölgerðina og Kjarnafæði sem sáu til þess að enginn fór svangur eða þyrstur heim úr mótunum. Einnig styrkti fjölda fyrirtækja okkur með flottum verðlaunum sem voru dregin út á lokahófi helgarinnar eftir criterium mótið, takk kærlega fyrir samstarfið og stuðninginn.Comments


bottom of page