Aðalfundur Hjólreiðafélags Akureyrar 2023 verður haldinn miðvikudaginn 22. nóvember, klukkan 20:00. Fundarstaður: Strikið veitingahús, norðursalur.
Ekki var löglega boðað til aðalfundar sem halda átti 06.11.23 samkvæmt lögum félagsins og var honum því slitið af fundarstjóra og frestað. Um 10 manns voru mættir á fundinn sem er aðeins um 10% félagsmanna. Í framhaldinu var haldin félagsfundur þar sem farið var yfir starfsemi HFA og hver stefna félagsins væri.
Fyrir boðaðan aðalfund lá fyrir að ekki tækist að manna stjórn og ljóst að annarra leiða yrði að leita til að halda starfsemi félagsins áfram.
Barna- og unglingastarf félagsins hefur verið í vexti undanfarin ár og var það ríkur vilji félagsfundar að reyna að halda því áfram með einhverjum hætti.
Ljóst er að ekki næst að vera með samskonar mótahald og undanfarin ár og ekki eru lagðar neinar kvaðir á nýja stjórnarmenn að halda úti formlegu mótahaldi. Kallar þetta ekki á neinar lagabreytingar þar sem engar skyldur til starfsemi eru lagðar á stjórn aðrar en lögbundnar skyldur í rekstri félagsins.
Fjallað var um á félagsfundi að hlúa að kjarnastarfi félagsins, barna- og unglingastarfi og halda áfram að efla afreksstarf ungmenna. Hjólreiðakona ársins kemur frá HFA og voru félagsmenn áberandi sem bikar- og Íslandsmeistarar á nýlegri uppskeruhátið HRÍ.
Þessar breytingar ættu að létta mikið á skyldum stjórnarmanna og veita þeim frelsi til að móta starfsemi félagsins til komandi ára, ef ekki næst að manna stjórn er ljóst að endalok starfsemi HFA eru yfirvofandi, sem er miður miðað við það góða starf sem unnið hefur verið hingað til og þann árangur sem félagsmenn hafa náð.
Óskað er eftir framboðum í stjórn fyrir komandi tímabil, bæði í aðalstjórn og varamenn.
Óski einhver eftir að bera upp erindi á fundinum er viðkomandi beðinn um að hafa samband við stjórn (stjorn@hfa.is), formann (formadur@hfa.is / 8926217)
Tillögur að Lagabreytingum Hjólreiðafélags Akureyrar
Lagt fyrir aðalfund 22. nóvember 2023.
3.grein
Félagar
Er:
Hver sá sem greiðir félagsgjald til félagsins er félagi í Hjólreiðafélagi Akureyrar. Félagar fara með eitt atkvæði á aðalfundi og félagsfundum. Einstaklingar yngri en 16 ára hafa ekki atkvæðisrétt. Upphæð félagsgjalda skal lögð fyrir aðalfund af stjórn til samþykkis og skulu þau renna í aðalsjóð félagsins. Félagatal skal varðveitt af stjórn. Stjórn skal setja sér reglur
um meðferð félagatals. Félagatal skal ekki látið af hendi til þriðja aðila. Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt skriflega til stjórnar. Þeir aðilar sem ekki greiða árgjald félagsins verða teknir af félagaskrá.
verður:
Hver sá sem greiðir félagsgjald til félagsins er félagi í Hjólreiðafélagi Akureyrar. Félagar fara með eitt atkvæði á aðalfundi og og félagsfundum. Einstaklingar yngri en 16 ára hafa ekki atkvæðisrétt. Foreldrar barna undir 16. ára í félaginu fara með atkvæðisrétt þeirra á aðalfundi og félagsfundum. Upphæð félagsgjalda skal lögð fyrir aðalfund af stjórn til samþykkis og skulu þau renna í aðalsjóð félagsins. Félagatal skal varðveitt af stjórn. Stjórn skal setja sér reglur um meðferð félagatals. Félagatal skal ekki látið af hendi til þriðja aðila. Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt skriflega til stjórnar. Þeir aðilar sem ekki greiða árgjald félagsins verða teknir af félagaskrá.
Breyting á 12. gr.
Lagt er til breyting á fjölda stjórnarmanna úr sjö í fimm. Þá eru þrír kjörnir sem aðalmenn og tveir til vara.
Lagt er til að fellt verði úr lögum félagsins að fulltrúi í stjórn skuli vera í öllum starfandi nefndum félagsins.
Lagt er til að fellt verði úr lögum að stjórn skipi formenn nefnda og orðalagi breytt í að félagsmenn geta gefið kost á sér til nefndarsetu á aðalfundi eða félagsfundi. Nefndir starfa í umboði stjórnar og hafa sjálfræði en bera ábyrgð gagnvart stjórn og geta ekki skuldbundið félagið nema með umboð stjórnar.
Er:
12. grein
Stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar - HFA
Stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar skal kosin á aðalfundi félagsins og skal skipuð fimm einstaklingum og tveimur til vara. Á hverjum aðalfundi skulu kosnir tveir einstaklingar til tveggja ára og einn til eins árs. Á hverjum aðalfundi eru þar af leiðandi kosnir þrír einstaklingar.
Varamenn eru kosnir til eins árs.
Til bráðabirgða fyrir aðalfund 2022 eru kosnir þrír fulltrúar til eins árs og tveir til tveggja ára. Þessi málsgrein fellur svo sjálfkrafa út á aðalfundi 2023.
Varamenn hafa ávallt rétt til setu á stjórnarfundum, með málfrelsi og tillögurétt. Stjórn félagsins skal setja sér siðareglur og skulu þær staðfestar af aðalfundi ár hvert.
Stjórn skiptir með sér verkum og velur formann, varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Stjórn og nefndum félagsins er heimilt að afgreiða mál á fjarfundum sem og með skipulagstólum á netinu svo fremi sem atkvæðagreiðsla fari fram eftir þörfum og sé skrásett í fundargerðum eins og á hefðbundnum fundum.
Prókúruhafar félagsins skulu vera tveir; formaður og gjaldkeri og skulu þeir hafa aðgang að öllum reikningum félagsins.
Stjórn skipar formenn í nefndir, til dæmis:
A. Fjallahjólanefnd
B. Götuhjólanefnd
C. Mótanefnd
Fulltrúi úr stjórn HFA skal vera í öllum starfandi nefndum. Formenn nefnda skulu ávallt hafa áheyrnar- og tillögurétt á stjórnarfundum. Ákvörðun um stofnun nýrra nefnda/deilda innan félagsins verður eingöngu tekin með samþykki allra stjórnarmanna.
Skoðunarmenn reikninga skulu fara yfir bókhald félagsins á 6 mánaða fresti, og skulu fá aðgang að bókhaldsgögnum óski þeir eftir því.
Verður:
12. grein
Stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar - HFA
Stjórn Hjólreiðafélags Akureyrar skal kosin á aðalfundi félagsins og skal skipuð af minnsta kosti þremur einstaklingum og tveimur til vara. Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Varamenn eru kosnir til eins árs.
Varamenn hafa ávallt rétt til setu á stjórnarfundum, með málfrelsi og tillögurétt. Stjórn félagsins skal setja sér siðareglur og skulu þær staðfestar af aðalfundi ár hvert.
Stjórn skiptir með sér verkum og velur formann, gjaldkera og ritara. Stjórn og nefndum félagsins er heimilt að afgreiða mál á fjarfundum sem og með skipulagstólum á netinu svo fremi sem atkvæðagreiðsla fari fram eftir þörfum og sé skrásett í fundargerðum eins og á hefðbundnum fundum.
Prókúruhafar félagsins skulu vera tveir; formaður og gjaldkeri og skulu þeir hafa aðgang að öllum reikningum félagsins.
Félagsmenn geta gefið kost á sér til nefndarsetu á aðalfundi eða félagsfundi. Nefndir starfa í umboði stjórnar og hafa sjálfræði en bera ábyrgð gagnvart stjórn og geta ekki skuldbundið félagið nema með umboði stjórnar. Nefndir félagsins geta verið til dæmis:
A. Fjallahjólanefnd
B. Götuhjólanefnd
C. Mótanefnd
Formenn nefnda skulu ávallt hafa áheyrnar- og tillögurétt á stjórnarfundum. Ákvörðun um stofnun nýrra nefnda/deilda innan félagsins verður eingöngu tekin með samþykki allra stjórnarmanna.
Skoðunarmenn reikninga skulu fara yfir bókhald félagsins á 6 mánaða fresti, og skulu fá aðgang að bókhaldsgögnum óski þeir eftir því.
Greinargerð:
Með þessum lagabreytingum er markmið að draga úr álagi á stjórnarmenn félagsins og auka ábyrgð almennra félagsmanna og forráðamanna á starfsemi þess. Hlutverk stjórnar verður fyrst og fremst að sinna lykilþáttum í starfsemi félagsins og rækta það eftir áhuga og getu. Er þetta jafnframt ákall til félagsmanna að taka þátt og axla ábyrgð á viðburðum og mótahaldi ef halda á slíka viðburði.
Ákvörðun um félagsgjald:
Lagt er til óbreytt félagsgjald 8000. kr en jafnframt að inn í æfingagjöldum í barna- og unglingastarfi sé félagsgjald sem veitir rétt til þátttöku í mótum á vegum HRÍ og foreldrar/forráðamenn fá atkvæðisrétt þeirra á aðalfundi og félagsfundum.
Lög félagsins og dagskrá aðalfundar má sjá inn á hfa.is undir flipanum “Félagið”
Comments