Gangamót Greifans var haldið á fimmtudaginn síðastliðinn, en mótið hefur lengi verið einn af hápunktum Hjólreiðahátíðar og fastur punktur á tímabilinu hjá keppendum í bikarmótaröð HRÍ. Í ár var mótið það síðasta í bikarmótaröðinni og því ljóst að það kæmi í ljós hverjir yrðu bikarmeistarar að mótinu loknu.
Í A-flokki karla var það Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki sem sigraði nokkuð örugglega, en hann hjólaði megnið af leiðinni einn eftir að hafa stungið snemma af. Í öðru sæti varð Eyjólfur Guðgeirsson og í þriðja varð Hafsteinn Ægir Geirsson, báðir úr Tindi. Í A-flokki kvenna sigraði Anna Guðrún Gunnlaugsdóttir úr Tindi, en í þessum flokki var þó nokkuð um árásir og minni hópa sem slitu sig frá stóra hópnum. Alvöru fjör í þessum flokki eins og oft áður í sumar. Í öðru sæti varð Hafdís Sigurðardóttir frá HFA og í þriðja sæti varð Bríet Kristý Gunnarsdóttir úr Tindi, sem hafði betur í endaspretti gegn Silju Jóhannesdóttur.
Á föstudag var keppt í Downhill í Hlíðarfjalli, í rjómablíðu og glæsilegri braut sem félagsmenn HFA hafa haft veg og vanda af því að útbúa og undirbúa fyrir mótið. Alex Tausen Tryggvason frá HFR sigraði í A-flokki karla, Bjarki Jóhannsson varð í öðru sæti og Baldvin Gunnarsson varð þriðji, báðir frá HFA. Í kvennaflokki sigraði Helga Lísa Kvaran og í öðru sæti varð Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir, báðar frá BFH. Ekki voru fleiri keppendur í þessum flokki.
Á miðvikudag var í fyrsta sinn haldið Slopestyle mót á Hjólreiðahátíð, og sennilega í fyrsta skipti sem slíkt mót er haldið á Íslandi á fjallahjólum. Brautinni var stillt upp í Skátagili og keppnin er mjög áhorfendavæn, en sökum samkomutakmarkana var ákveðið að auglýsa keppnina ekki og forðast þannig að of margir yrðu á svæðinu. Fjölmargir ungir keppendur mættu til leiks og greinilegt að starf HFA í vetur með stökkpalla og lendingarpúða í Boganum eru að skila sér vel, en þar var Gunnar Jarl Gunnarsson þjálfari fremstur í flokki. Sömu pöllum var stillt upp í brautinni og í lokin lentu keppendur á púðanum góða. Þessi keppni, sem hefur verið hugarfóstur Árna formanns í HFA, er klárlega komin til að vera! Sigurvegari var Björn Andri Sigfússon, í öðru sæti Elvar Máni Stefánsson, og í þriðja sæti var Viktor Þorgeirsson.
Von er á stórum myndapökkum úr öllum mótum frá Ármanni Hinriki, hlekkjum verður fyrst deilt á Facebook síðu HFA en síðar koma tenglar á albúm hérna inn á heimasíðuna.
Comments